Book Creator

Njála - kennsluleiðbeiningar

by Brynhildur Thorarinsdottir

Cover

Loading...
Loading...
Kennsluleiðbeiningar fyrir 6.–8. bekk
Höfundur: Brynhildur Þórarinsdóttir
Útgáfa rafbókar: 2022
Um kennsluleiðbeiningarnar
Kennsluleiðbeiningarnar gerði Brynhildur Þórarinsdóttir, höfundur endursagnar Njálu fyrir börn (Mál og menning, 2002). Brynhildur er íslenskufræðingur og dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Brynhildur hefur sent frá sér fjölda barnabóka, þar á meðal þrjár endursagnir úr Íslendingasögum, Njálu, Eglu og Laxdælu, sem Margrét Laxness myndlýsti. Bækurnar eru víða notaðar í grunnskólum og eru kennsluleiðbeiningar til við þær allar.
Brynhildur heldur líka úti vefnum www.islendingasogur.is sem styrktur var af Þróunarsjóði námsgagna. Vefurinn er barnvænn og auðlesinn og hægt er að hlusta á efni hans. Vefurinn gagnast við verkefnavinnu en minna þarf nemendur á að geta heimildar. Að sama skapi er leyfilegt að nota texta hans við kennslu ef heimildar er getið.

Vefurinn er viðbót við endursagnirnar og svarar mörgum spurningum sem brenna á ungum lesendum. Við hönnun var gengið út frá því að börn gætu bjargað sér sjálf í vefleiðangrinum. Hönnuður vefsins er Dagný Reykjalín hjá Blekhönnun.
Um barna-Njálu
Njála fyrir börn er 64 síður, 18 stuttir og hnitmiðaðir kaflar. Frásögnin er, eins og gefur að skilja, mikið stytt og því hefur ýmsu verið sleppt, kannski persónum sem dyggir Njáluaðdáendur munu sakna. Þeim verða lesendur einfaldlega að kynnast síðar þegar þeir taka fram hina gömlu góðu Brennu-Njáls sögu. Þessari gerð er nefnilega ekki ætlað að koma í stað hinnar „upprunalegu“ heldur vekja áhuga á verkinu, kynna hugarheim Íslendingasagnanna fyrir yngstu lesendunum.

Ákveðið var að fækka persónum og atburðum frekar en að þynna þá alla út. Frásögnin var afmörkuð við ákveðna einstaklinga til þess að lesendur gætu upplifað spennu, samsamað sig persónunum og eignast sínar uppáhaldshetjur. Njála hefur öldum saman verið einhver vinsælasta Íslendingasagan og margt fullorðið fólk talar um söguhetjur Njálu sem nána ættingja sína. Svona stutta og einfalda gerð er því ekki hægt að gefa út nema textinn sé trúr „upphaflegu“ gerðinni. Mikilvægt þótti að láta þekkt tilsvör og málshætti halda sér og sama skapi var reynt að skrifa bókina ekki á barnamáli.

Einnig var ákveðið að bjóða upp á fjölmörg styttri lesatriði meðfram aðaltextanum, eins konar krækjur. Þar eru upplýsingar um umhverfi söguhetjanna, til dæmis stöðu kynjanna, vopnaburð og goðaveldið. Í hliðarefninu eru einnig fjölmargar orðskýringar og ýmislegt smálegt um Njálu í nútímanum sem vakið getur athygli krakka. Loks var lögð mikil áhersla á litríkar og lifandi myndir sem ýtt gætu undir áhuga barna á efninu.
Áður en haldið er af stað
Hugarheimur Íslendingasagnanna er afar ólíkur því sem við þekkjum og nauðsynlegt er að börnin kynnist hugtökum sem skiptu máli á víkingaöld áður en lesturinn hefst. Í þessari rafbók eru lykilhugtök sagnanna skýrð í stuttu máli, hugtök á borð við sæmd, hefndir, sættir og forlagatrú. Þessar hugtakaskýringar mætti nota beint í kennslu.

Þótt ekki sé gert ráð fyrir að nemendur hafi kynnst hugarheimi Íslendingasagnanna er mælt með því að þeir hafi lesið eitthvað um sögutímann, til dæmis Landnámsmennirnir okkar (Mál og menning) eða bækur Námsgagnastofnunar Komdu og skoðaðu Landnámið, Leifur heppni eða Landnám Íslands.

Kaflar barna-Njálu eru mjög stuttir og hnitmiðaðir en hér eru engu að síður spurningar fyrir hvern kafla til upprifjunar á söguþræðinum. Auk þess er stungið upp á fjölmörgum umræðuefnum og annars konar verkefnum. Markmiðið er að nemendur þekki til helstu persóna og atburða Njálu og læri sitt hvað um hugmyndaheim Íslendingasagnanna.

Verkefnin tengja íslensku, samfélagsfræði og lífsleikni því Njála hvetur til margvíslegra vangaveltna: um mannlegt eðli, lífsgildi, skoðanir, hlutverk kynjanna, stéttir þjóðfélagsins, glæpi, refsingu, hefndir, sættir, vináttu, traust, svik, róg og orðheldni, svo fátt eitt sé nefnt.
Um Njálu gömlu
Brennu-Njáls saga er talin hafa verið skrifuð á síðari hluta 13. aldar en ekki er vitað hver það gerði. Hátt í 60 handrit eru til af sögunni en fimm þeirra eru frá því um 1300. Eins og gefur að skilja voru handrit handskrifuð, hver skrifari setti mark sitt á söguna, jók við athugasemdum, breytti lítillega orðalagi eða leiðrétti villur (eða bætti óvart við villum). Þess vegna eru engin tvö handrit Njálu eins. Eitt merkasta handrit Njálu, Möðruvallabók, má sjá á mynd á bls. 9.

Ýmsan fróðleik um Brennu-Njáls sögu og uppruna hennar er að finna á bls. 8- 9 í Njálu. Þessir fróðleiksmolar henta vel til kynningar á verkinu áður en hinn eiginlegi lestur þess hefst.

Árnastofnun er með skemmtilegan krakkavef um handritin sem sniðugt er að skoða með bekknum: https://krakkar.arnastofnun.is/#/
PrevNext