Book Creator

Egla - kennsluleiðbeiningar

by Brynhildur Thorarinsdottir

Cover

Loading...
Loading...
Kennsluleiðbeiningar fyrir 6.–8. bekk
Höfundur: Brynhildur Þórarinsdóttir
Útgáfa rafbókar: 2022
Um kennsluleiðbeiningarnar
Kennsluleiðbeiningarnar gerði Brynhildur Þórarinsdóttir, höfundur Eglu fyrir börn (Mál og menning, 2004). Brynhildur er íslenskufræðingur og dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Brynhildur hefur sent frá sér fjölda barnabóka, þar á meðal þrjár endursagnir úr Íslendingasögum, Njálu, Eglu og Laxdælu, sem Margrét Laxness myndlýsti. Bækurnar eru víða notaðar í grunnskólum og eru kennsluleiðbeiningar til við þær allar. Brynhildur hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir þessar bækur 2007.
Brynhildur heldur líka úti vefnum www.islendingasogur.is sem styrktur var af Þróunarsjóði námsgagna. Vefurinn er barnvænn og auðlesinn og hægt er að hlusta á efni hans. Vefurinn gagnast við verkefnavinnu en minna þarf nemendur á að geta heimildar. Að sama skapi er leyfilegt að nota texta hans við kennslu ef heimildar er getið.

Vefurinn er viðbót við endursagnirnar og svarar mörgum spurningum sem brenna á ungum lesendum. Við hönnun var gengið út frá því að börn gætu bjargað sér sjálf í vefleiðangrinum og unað sér á ferðalaginu. Reglulega birtast því molar sem gefa leiðangrinum fræðandi skemmtigildi. Hönnuður vefsins er Dagný Reykjalín (blekhonnun.is).
Gagnlegar slóðir fyrir kennslu barna–Eglu
Brynhildur Þórarinsdóttir hefur einnig gert ítarlegri endursögn af Egils sögu sem ætluð er unglingum. Bókin var gefin út af Námsgagnastofnun 2014 með myndum eftir Halldór Baldursson. Rafbókin er hér í opnum aðgangi á vef Menntamálastofnunar. Aftast í bókinni er gagnlegt ítarefni og verkefni.
Í kennsluleiðbeiningum Brynhildar við Njálu er ítarlegri umfjöllun um Íslendingasögurnar og lykilhugtök þeirra sem gagnast einnig fyrir kennslu Eglu.
Á Íslendingasagnavef Brynhildar er sérstakt svæði um Egils sögu. Þar er t.d. hægt að lesa um persónur sögunnar og sögusvið sem er býsna víðfeðmt. Vefurinn gagnast jafnt í skólum sem við heimalestur.
Hlaðvarpið Ormstungur fjallar á léttum en gagnlegum nótum um Íslendingasögur í kennslu. Umsjónarmenn þess eru grunnskólakennararnir Hjalti Halldórsson og Oddur Ingi Guðmundsson. Í hlaðvarpinu um Egils sögu ræddu þeir m.a. við höfund barna-Eglu, Brynhildi Þórarinsdóttur.
Í þættinum Hlustaðu nú! á Krakkaruv fjallaði Ingibjörg Fríða Helgadóttir um Egil Skalla-Grímsson. Hún studdist m.a. við efni af Íslendingasagnavef Brynhildar við gerð þáttarins.
Í Landnámssetrinu í Borgarnesi eru tvær áhugaverðar sýningar sem tengjast þessari kennslu. Önnur er almenn landnámssýning og hin er um Egils sögu Skalla-Grímssonar.
Fjölmörg skemmtileg listaverk sem höfða til barna eru á sýningunum.
Hér er krækja á Eglusýninguna á vef Landnámssetursins.
Um barna-Eglu
Egla fyrir börn er 64 síður, 19 stuttir og hnitmiðaðir kaflar. Frásögnin er mikið stytt, eins og gefur að skilja. Þessari gerð er ekki ætlað að koma í stað gömlu, góðu Egils sögu Skalla-Grímssonar heldur vekja áhuga á verkinu og auðvelda skilning.

Egils saga er óvenjuleg Íslendingasaga. Hún er ekki hetjusaga þar sem söguhetjan fellur með sæmd eftir frækilegan bardaga heldur ævisaga. Við fylgjumst með Agli frá því hann er barn og þar til hann deyr úr elli. Allir kaflar bókarinnar snúast því um Egil Skalla-Grímsson.

Meðfram aðaltextanum eru stuttir hliðartextar sem auðvelda og dýpka skilning á sögunni. Þar eru upplýsingar um samfélagið á sögutímanum, til dæmis heiðinn sið, rúnir, leiki barna og veislur. Í hliðarefninu eru einnig orðskýringar og ýmislegt sem tengir Eglu við nútímann.

Egla er prýdd litríkum myndum en myndhöfundur er Margrét E. Laxness. Að auki er fjöldi ljósmynda með hliðarefninu.
PrevNext