Book Creator

Laxdæla - kennsluleiðbeiningar

by Brynhildur Thorarinsdottir

Cover

Loading...
Loading...
Kennsluleiðbeiningar fyrir 6.–8. bekk
Höfundur: Brynhildur Þórarinsdóttir
Útgáfa rafbókar: 2022
Um kennsluleiðbeiningarnar
Kennsluleiðbeiningarnar gerði Brynhildur Þórarinsdóttir, höfundur Laxdælu fyrir börn (Mál og menning, 2006). Brynhildur er íslenskufræðingur og dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Brynhildur hefur sent frá sér fjölda barnabóka, þar á meðal þrjár endursagnir úr Íslendingasögum, Njálu, Eglu og Laxdælu, sem Margrét Laxness myndlýsti. Bækurnar eru víða notaðar í grunnskólum og eru kennsluleiðbeiningar til við þær allar. Brynhildur hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir þessar bækur 2007.
Brynhildur heldur líka úti vefnum www.islendingasogur.is sem styrktur var af Þróunarsjóði námsgagna. Vefurinn er barnvænn og auðlesinn og hægt er að hlusta á efni hans. Vefurinn gagnast við verkefnavinnu en minna þarf nemendur á að geta heimildar. Að sama skapi er leyfilegt að nota texta hans við kennslu ef heimildar er getið.

Vefurinn er viðbót við endursagnirnar og svarar mörgum spurningum sem brenna á ungum lesendum. Við hönnun var gengið út frá því að börn gætu bjargað sér sjálf í vefleiðangrinum og unað sér á ferðalaginu. Reglulega birtast því molar sem gefa leiðangrinum fræðandi skemmtigildi. Hönnuður vefsins er Dagný Reykjalín (blekhonnun.is).
Um Laxdælu
Laxdæla er meðal þekktustu og vinsælustu Íslendingasagnanna. Sagan er ein sú harmrænasta en um leið rómantískasta enda er ástin upphafið að átökum hennar. Kjartan Ólafsson, Bolli Þorleiksson og Guðrún Ósvífursdóttir mynda eftirminnilegasta ástarþríhyrning íslenskra bókmennta. Harmur sögunnar felst í því að piltarnir sem berjast um ástir stúlkunnar eru ekki bara bestu vinir heldur náfrændur, uppeldisbræður og fóstbræður að auki. Inn í blóðug átök þeirra flækjast frændur og vinir úr nátengdum fjölskyldum. Laxdæla getur einnig kallast bæði héraðssaga og ættarsaga enda fylgir hún afkomendum Unnar djúpúðgu í landnámi hennar, Dalasýslu. Á yfirborðinu er Laxdæla eins og aðrar Íslendingasögur, textinn knappur, persónurnar kaldhæðnar og tilsvör þeirra nöturleg. Tilfinningarnar ólga þó undir yfirborðinu; ást, hatur, afbrýðissemi og eftirsjá. Þannig er stíll Íslendingasagnanna, persónurnar eru ávallt sýndar utan frá en lesendum látið eftir að skyggnast undir yfirborðið og túlka líðan þeirra.
Íslendingasögur handa skólabörnum
Íslendingasögurnar má lesa með skólabörnum á öllum aldri ef vel er á málum haldið. Kennsluleiðbeiningarnar eru hugsaðar fyrir 6.–8. bekk en geta þó nýst á öðrum skólastigum. Laxdæla verið lesin í efstu bekkjum grunnskóla og í framhaldsskóla og þó að þessi gerð sé ætluð yngri börnum hentar hún vel til að fá yfirsýn yfir söguna og samhengi atburða áður en ráðist er í lestur hinnar löngu sögu. Hún getur einnig nýst nemendum sem ekki hafa góðan grunn í íslensku þegar Laxdæla hin lengri er lesin í bekknum.
Íslendingasögurnar höfða sterkt til barna en það þarf að leiða þau inn í þessa fornu veröld. Íslendingasögurnar geyma frásagnir sem vekja börn til umhugsunar um lífið og tilveruna. Þær sýna samfélag sem liðið er undir lok en endurspeglast á vissan hátt í nútíðinni. Persónurnar eru af holdi og blóði og vekja sterk viðbrögð hjá ungum lesendum. Sögurnar geta því komið að góðu gagni í námsgreinum á borð við lífsleikni og samfélagsfræði.
Saga og samfélag er því áberandi í þessum kennsluleiðbeiningum. Gengið er út frá því að Laxdæla lýsi samfélagi og hugmyndaheimi í upphafi Íslandsbyggðar. Sögutíminn getur bæði kallast söguöld og víkingaöld því þessi hugtök skarast. Hugtakið víkingaöld er notað um tímabilið frá síðari hluta 8. aldar til miðrar 11. aldar en atburðatími Íslendingasagnanna er frá lokum 9. aldar til fyrstu áratuga 11. aldar.
Með því að lesa Íslendingasögur með skólabörnum gefst tækifæri til að ferðast um forna veröld sem í senn er gjörólík heimi barnanna og býður upp á speglarnir við þeirra líf. Í sögunum eru manneskjur af holdi og blóði, breyskar eins og við hin. Þar eru karlar, konur og börn, ömmur og afar, víkingar, konungar, tröll og draugar. Persónurnar eru afbrýðissamar, sorgmæddar, kátar, hugrakkar, gjafmildar, hefnigjarnar, glysgjarnar, ástfangnar, blóðþyrstar og friðsamlegar. Vandamálin sem þær glíma við gætu í sjálfu sér átt sér stað í barnahópnum, deilt er um yfirráðasvæði, vini, gjafir og völd. Persónurnar sýna styrk sinn og stöðu, treysta vináttuna og hefna ófara sinna en lykilatriði er þó að sættast, deilum þarf að ljúka.
PrevNext