Book Creator

Gásagátan í kennslu

by Brynhildur Thorarinsdottir

Pages 2 and 3 of 61

Gásagátan í kennslu
Loading...
Um Gásagátuna
Loading...
Gásagátan er söguleg skáldsaga eftir Brynhildi Þórarinsdóttur. Sagan gerist árið 1222, í upphafi Sturlungaaldar þegar hefndin er enn lykilhugtak í íslensku samfélagi þótt landsmenn séu orðnir kaþólskir og kirkjuræknir. Gásagátan segir frá bræðrunum Kolsveini og Kálfi, ungum Grímseyingum sem koma til verslunarstaðarins Gása í mikilvægum erindagjörðum. Strákarnir eiga harma að hefna eftir föður sinn en þeir ætla sér líka að verða ríkir og þar kemur dularfullur kassi við sögu. Á Gásum kynnast bræðurnir krökkum sem síðar verða þekktir þátttakendur í róstum Sturlungaaldar. Þeir hitta líka frægt fólk eins og Snorra Sturluson, Guðmund biskup Arason og Sighvat á Grund.
Loading...
Loading...
Gásagátan varð til í samstarfi við sjálfseignarstofnunina Gásakaupstað ses., sem hafði veg og vanda að uppbyggingu sögutengdrar ferðaþjónustu að Gásum við Eyjafjörð, og Minjasafnið á Akureyri. Verkefnið hlaut styrk frá Menningarráði Eyþings. Bókin kom fyrst út hjá Máli og menningu 2009. Hún er nú einnig fáanleg sem hljóðbók og rafbók frá Forlaginu og er á Storytel. Markmiðið með ritun bókarinnar var að opna börnum dyr að merkilegu tímabili í Íslandssögunni gegnum þeirra eigin menningu. Gásagátan er þó ekki bara hugsuð sem kennslubók heldur var alltaf haft að leiðarljósi að skapa fyrst og fremst spennandi, skemmtilega og áhugaverða sögu sem hvetti börn til lestrar.
Loading...
Um höfundinn
Loading...
Brynhildur Þórarinsdóttir er rithöfundur og dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Hún hefur sent frá sér fjölda bóka fyrir börn og unglinga, bæði skáldverk og endursagnir á Íslendingasögum. Hún er íslenskufræðingur að mennt með MA-próf í miðaldabókmenntum og heldur úti kennsluvefnum www.islendingasogur.is þar sem bæði er fjallað um atburðatíma og ritunartíma Íslendingasagnanna.
Loading...
Loading...
Gásagátan, sem kom út 2009, var áttunda barnabók Brynhildar en áður höfðu komið út Lúsastríðið (2002), Njála (2002), Leyndardómur ljónsins (2004), Egla (2004), Laxdæla (2006), Nonni og Selma – fjör í fyrsta bekk (2007) og Nonni og Selma – fjör í fríinu (2008). Um fleiri bækur Brynhildar má lesa á www.brynhildurth.is

Brynhildur hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar, hún hlaut Vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir Njálu 2003 en árið 2007 fékk hún Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir endursagnir sínar á Njálu, Eglu og Laxdælu. Hún hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2004 fyrir spennusöguna Leyndardóm ljónsins.
Höfundur les úr Gásagátunni í Eymundsson á Akureyri 2009. Miðaldaklæðnaðurinn er úr fórum Minjasafnsins á Akureyri.
Um sögutímann / atburðatímann
Gásagátan gerist árið 1222. Sturlungaöldin er nýhafin og ýmsir vofeiflegir atburðir hafa átt sér stað á Íslandi. Valdabarátta höfðingjaætta landsins er að hefjast en barátta kirkjunnar og höfðingjanna er í hámarki. Guðmundur Arason Hólabiskup og Skagfirðingar hafa til dæmis staðið í blóðugum átökum. Alverstu bardagar Sturlungaaldar eru þó eftir. Þetta er árið sem Snorri Sturluson er gerður að lögsögumanni í annað sinn, hann er orðinn lénsmaður Noregskonungs og er voldugasti og jafnframt einn ríkasti maður landsins. 1222 taka deilur Gvendar biskups og norðlenskra höfðingja líka á sig nýja mynd. Biskupsliðið hefur drepið Tuma Sighvatsson, son Sighvats á Grund sem er helsti höfðingi Eyjafjarðar. Biskupinn flýr með lið sitt út í Grímsey um páskana en Sighvatur og fleiri sigla þangað með vopnað 300 manna lið. Þar kemur til hörkuátaka. Um sumarið er biskupinn síðan sendur utan frá Gásum. Þessir atburðir blandast inn í Gásagátuna enda eru söguhetjurnar Grímseyingar sem misstu föður sinn í átökunum í eyjunni. Árið 1222 er Evrópa orðin kristin en kristninni fylgir ekki bara friður og fyrirgefning eins og stundum er stillt upp sem andstæðum heiðninnar. Páfinn í Róm, sem er æðsti yfirmaður kirkjunnar, stendur í blóðugum krossferðum til Jórsala (Jerúsalem) og blóðhefnd er enn ríkjandi. Á Íslandi er blóðhefndin ekki formlega afnumin fyrr en lögbókin Járnsíða tekur við af þjóðveldislögunum 1271.
Sögusviðið
Gásir við Eyjafjörð
Hér er stutt kynningarmyndband um þennan forna verslunarstað. Tilvalið er að spila það fyrir bekkinn.
Gásakaupstaður með augum teiknara bókarinnar, Helga Þórssonar.
Þessi yfirlitsmynd er tekin á miðaldadögum þegar Gásakaupstaður lifnar við
Fornleifauppgröftur hófst að Gásum í upphafi 21. aldar og þar eru friðlýstar fornminjar.
Gásir lifna við
Árlega eru haldnir miðaldadagar að Gásum þar sem hægt er að upplifa stemninguna eins og hún gæti hafa verið í kaupstaðnum á atburðatíma Gásagátunnar. Þarna kemur saman áhugafólk um miðaldir, klætt tísku miðalda, eldar mat að hætti miðalda og stundar miðalda handverk eins og eldsmíði. Leikinn er knattleikur og við og við brestur á með bardaga milli flokka.

Á vef Minjasafnsins á Akureyri er að finna ýmsar upplýsingar um Miðaldadagana, t.a.m. hvenær næsta hátíð verður haldin. Þar er einnig fjöldi ljósmynda sem hægt er að sýna í kennslustofunni til að lífga upp á lestur sögunnar. Ljósmyndirnar í þessari rafbók eru frá Minjasafninu.
Gásagátan í kennslu
Athugið að ítarefnið aftast í Gásagátunni dýpkar skilning á tímabilinu og tíðarandanum. Mælt er með lestri þess áður en kennsla hefst. Efnið er stílað á börn og hægt að taka inn í kennsluna með ýmsum hætti.

Gásagátan kom út 2009 og var samin með samþættingu íslensku og samfélagsfræði á miðstigi í huga. Í nýrri aðalnámskrá (2011/2013) er tekið fram að undir samfélagsfræði falli greinar eins og saga, landafræði, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni, heimspeki og siðfræði. Samfélagsfræði kalli því á samþættingu námsgreina, eða eins og segir:

„Samfélagsgreinar deila viðfangsefnum sínum, gildum og markmiðum með ýmsum öðrum námsgreinum og námssviðum. Sérstaða þeirra felst í því hvernig þær ljá nemendum mikilvæg verkfæri til þess að þróa skilning sinn á sjálfum sér, öðru fólki og því umhverfi og samfélagi sem þeir hrærast í. Nemendur þjálfast í að greina margs konar gögn, túlka margvíslegar heimildir og meta frásagnir um fjölbreytileg lífsskilyrði fólks, sem og þróun samfélags og menningar.“ 
PrevNext