Book Creator

Foreldrahandbók Álfaheiðar

by Hildur Hálfdanardóttir

Cover

Loading...
Loading...
Foreldrahandbók Álfaheiðar
Loading...
Aðlögun
Að byrja í leikskóla er mikil breyting og ný reynsla fyrir barn og foreldra þess. Áður en leikskóladvöl hefst eru foreldrar boðaðir á kynningarfund eða foreldrasamtal án barns þar sem leikskólastarfið er kynnt, húsakynni skoðuð og skrifað er undir dvalarsamning. Aðlögun tekur fimm daga eða lengur, allt eftir því hvernig gengur. Reynt er að sjá til þess að sami starfsmaður sinni aðlögun barns.

Barn og foreldrar þurfa að fá góðan tíma til að kynnast leikskólanum, deildinni, umhverfinu, starfsfólkinu og barnahópnum. Með góðum aðlögunartíma aukast tengslin milli foreldra og starfsfólks. Hornsteinn er lagður að öryggi og vellíðan barnsins í leikskólanum og samstarfi heimilis og skóla.

Aðlögun á milli deilda fer fram annaðhvort fyrir eða eftir sumarlokun en þá fer hópur barna frá yngri deildum á eldri deildir. Til að auðvelda börnunum þessar breytingar fylgir hluti starfsmanna þeim tímabundið yfir á nýju deildina.

Þegar barn færist á milli deilda á miðju skólaári fylgir starfsmaður barninu í aðlögun með heimsóknum á nýju deildina. Foreldrar eru boðaðir í stutt samtal áður en barnið fer á nýja deild og er velkomið að vera með barni sínu í aðlögun.
Daglegt líf í leikskólanum
Daglegt líf í Álfaheiði snýst um velferð og vellíðan barnanna sem þar dvelja.
Leikskólastarfinu er skipt í ýmiss konar leik, náms- og samverustundir.

Dagskipulag:

Kl: 07:45 - Leikskólinn opnar
Kl: 08:00 - 09:00 Nám og leikur (inni - úti)
Kl: 08:30 - 09:00 Morgunverður
Kl: 09:30 - 11:30 Nám og leikur (inni - úti)
Kl: 11:30 - 12:00 Hádegisverður
Kl: 12:00 - 13:00 Hvíld (lengur hjá yngri börnunum)
Kl: 13:00 - 14:30 Nám og leikur (inni - úti)
Kl: 14:30 - 15:00 Síðdegishressing
Kl: 15:00 - 16:30 Nám og leikur (inni - úti)
Kl: 16:30 - Leikskólinn lokar


Nánari útfærslu af dagskipulagi má sjá á hverri deild.

Að koma og fara
Leikskólinn leggur áherslu á að taka vel á móti hverju barni. Foreldrum ber að afhenda barn til starfsmanna þegar komið er í leikskólann og láta starfsmann viðkomandi deildar vita þegar barnið er sótt. Mikilvægt er að foreldrar virði þann tíma sem þeir kaupa því vinnutími starfsmanna er skipulagður með tilliti þess.

Foreldrar skrifa undir eyðublað um hverjir mega sækja barnið í leikskólann og er það ekki afhent öðrum en þeim sem eru á listanum nema um annað hafa verið samið. Mikilvægt er að foreldrar tilkynni starfsmönnum ef barn er sótt af öðrum.

Vinsamlegast athugið að aka varlega í næsta nágrenni leikskólans. Það er mikill mengunarvaldur að hafa bíla í gangi á bílastæðunum, vinsamlegast takið tillit til þess. Mikilvægt er að loka alltaf hliðinu að lóð leikskólans öryggisins vegna.

Matur og næring
Matartímar og borðhald hafa mikið uppeldislegt gildi og lögð er áhersla á hollan og fjölbreyttan mat. Matarstefna leikskólans styðst við ráðleggingar Embættis landlæknis.
Boðið er upp á morgunverð, hádegisverð og síðdegishressingu í leikskólanum. Matseðill er kynntur foreldrum á deildum og á heimasíðunni.

Ef barn er með ofnæmi eða mataróþol er reynt að koma til móts við það í samráði við foreldra en ávallt þarf að skila inn vottorði frá viðurkenndum lækni.

Vinsamlegast komið ekki með mat í leikskólann því þar geta dvalið börn með bráðaofnæmi.

Svefn og hvíld
Svefn og hvíld er barni nauðsynleg ekki síst á fyrstu árum ævinnar þegar vöxtur og þroski er sem örastur. Þreytt barn á erfitt með að takast á við langan vinnudag í leikskólanum. Lögð er áhersla á að öll börn eigi kyrrláta hvíldarstund á degi hverjum þar sem þau ýmist sofa, hlusta á sögu, rólega tónlist eða fara í jógaleiki. Með því að hlúa að svefnvenjum þeirra hlúum við í leiðinni að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra. Því vekjum við ekkert barn á yngri deildum fyrr en eftir kl. 13:30. Svefn fyrir klukkan 14 á daginn hefur ekki áhrif á nætursvefn.

PrevNext