Verkefnabók JF

by Jon Freyr Axelsson

Cover

Loading...
Kynjafræði
Loading...
Loading...
Jón Freyr Axelsson
Kynjatvíhyggja og staðalímyndir

Kynjatvíhyggja er í raun nokkuð einfalt hugtak en hefur áhrif á alveg gríðarlega margt í samfélaginu. Eins og nafnið ber með sér gerir það ráð fyrir því að einungis séu til tvö kyn þ.e. karlkyn og kvenkyn og að þau séu hin fullkomna andstaða hvors annars og bæti því hvort annað upp. Kynjatvíhyggju má í rauninni sjá út um allt í samfélaginu og mörg erum við alin upp við að þykja það mjög eðlilegt og gerum engar athugasemdir við það. Barnaföt eru t.d. oft greind eftir kyni – bleikt fyrir stelpur og blátt fyrir stráka. Leikföng eru einnig oft flokkuð eftir mjög kynjuðum stöðlum – strákar leika með bíla og gröfur en stelpur leika með eldhúsdót og dúkkur. Í rauninni fléttast inn í kynjatvíhyggjuna ákveðnar staðalímyndir eða fyrirfram ákveðnar hugmyndir um kynin og þeirra eiginleika og áhuga.
Kynjaumfjöllun

Þegar fjallað er um kyn í daglegu máli er oftast verið að tala um hin tvö líffræðilegu kyn og er samfélagið okkar mjög litað af því þ.e. hinni svokölluðu kynjatvíhyggju. Oftast er hugsað um kynin sem tvö þ.e. karlkyns og kvenkyns og almenn umræða um kyn eftir því þ.e. við búum við ákveðið kynjakerfi. Orðið kyn felur því í sér ákveðna flokkun út frá líffræðilegum einkennum sem gera fólk karlkyns eða kvenkyns. Þó er umræða og hugsunarháttur að breytast í samfélaginu og því tölum við einnig um trans fólk og intersex sem kyn en það eru einstaklingar sem fæðast með breytileika á líffræðilegum kyneinkennum og upplifa sig t.d. ekki í réttu kyni. Kyni er oft ruglað saman við svokallað kyngervi en það eru félagsleg einkenni sem samfélagið viðheldur og segir okkur hvað er kvenlegt og hvað er karlmannlegt þ.e. ákveðin kynhlutverk. Þau er því í raun félagslega mótuð hugmynd og eru breytileg eftir menningu og siðum hvers tíma.   Sem dæmi má nefna að karlmenn gengu um með farða, hárkollur og í hælaháum skóm fyrir einhverjum öldum og var það ákveðið stöðutákn. Í dag þykir það ekki karlmannlegt heldur kvenlegt.
Kynjagleraugun

Kynjagleraugu er í mínum skilningi hugtak sem hægt er að nota yfir það þegar fólk opnar augun fyrir því hvernig kynjakerfið hefur áhrif á einstaklinga og í raun breytir hugsun sinni svo að hún verður gagnrýnni. Sagt er að þegar búið er að setja upp kynjagleraugun sé erfitt að „taka þau aftur niður“ því þegar við höfum komið auga á einhvers konar misrétti er erfitt að líta undan því, sama á hvaða sviði það er. Kynjagleraugu hjálpa okkur að leiðrétta gamaldags hugarfar sem við erum e.t.v. föst í fyrir tilstilli samfélagslegra gilda sem áður þóttu sjálfsögð en í dag eru orðin úrelt. 
Femínismi

Femínismi er að mínu mati hugmyndafræði þar sem barist er fyrir jafnrétti kynjanna og bent á það valdamisræmi sem á sér oft stað í samfélaginu. Femínistar berjast fyrir réttindum kvenna og í raun ýmissa annarra minnihlutahópa. Helstu átakafletir sem femínistar þurfa að takast á við í dag myndi ég telja að væru valdamismunur, launajafnrétti, og baráttan gegn kynbundnu ofbeldi.
Femínistar fyrri tíðar þurftu að berjast með kjafti og klóm fyrir því sem við teljum hálf sjálfsagt í dag eins og t.d. kosningarétti og í raun bara tilverurétti kvenna. Síðar meir var það rétturinn til notkunar getnaðarvarna og fóstureyðingar þ.e. rétturinn yfir eigin líkama, og viðurkenning á rétti kvenna til þess að starfa utan heimilis og fá greitt fyrir það mannsæmandi laun.
Í dag finnst mér baráttan einnig snúast um þessi málefni en í nýjustu byltingunni er bent á valdamisrétti og það kynbundna ofbeldi sem allt of margar konur búa við í samfélaginu okkar. Konur eru þó farnar að snúa vörn í sókn og nafngreina gerendur sína og ofbeldismenn og því eru farnar að fylgja afleiðingar t.d. að valdamiklir, áberandi eða þjóðþekktir menn komast ekki lengur upp með að brjóta af sér og segja bara fyrirgefðu. Þeir missa vinnu eða þurfa sjálfir að segja af sér. Þó svo að þessi umræða geti verið eldfim og jafnvel varhugaverð þá er það jákvætt skref í rétta átt að kynbundnu ofbeldi sé ekki lengur sópað undir teppið og „boys will be boys“ sé viðhorfið. 
Feminískt listaverk
PrevNext